Í gær hófst fimmta „Fanfest“ hátíð tölvuleikjaframleiðandans CCP. Þar hittast spilarar tölvuleiksins EVE Online frá öllum heimshornum og taka þátt í ýmsum uppákomum. Hátíðinni lýkur á morgun, laugardag.

Að sögn Elísabetar Grétarsdóttur, markaðsstjóra CCP í Evrópu, er von á 700 erlendum gestum og hátíðin verður sú glæsilegast sem fyrirtækið hefur staðið fyrir til þessa.

„Meðal erlendra gesta verða auðvitað spilarar leiksins en líka fólk úr leikjaiðnaðinum og hellingur af blaðamönnum. Síðan má ekki gleyma starfsfólki CCP en spilarar leiksins eru ekki bara komnir til að hitta hvern annan heldur ekki síður til að ræða við þá sem hanna og þróa tölvuleikinn."

Í fyrra mættu um 600 manns en hátíðin hefur stækkað ár frá ári.

Hátíðir á borð við þessa tíðkast í tölvuleikjabransanum að sögn Elísabetar en hún segir þó frekar sérstakt að halda slíkan viðburð á svo sérstökum stað og Íslandi. Þær séu frekar haldnar á meginlandinu.

„En okkur hefur alltaf fundist það hluti af upplifuninni að hitta okkur hér í okkar náttúrulega umhverfi ef svo má að orði komst," segir Elísabet.