Erlend lántaka ríkisins eða Seðlabanka gæti sett þrýsting á lánshæfismat íslenska ríkisins, að mati Pauls Rawkins, sérfræðings hjá matsfyrirtækinu Fitch Ratings.

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að lán af þeirri stærðargráðu sem nefnd hefur verið, 5-10 milljarðar evra, jafngilti 40-80% af vergri landsframleiðslu á Íslandi, sem þýddi að vergar skuldir ríkisins hækkuðu upp í 70-100% af vergri landsframleiðslu. Nú er hlutfallið 28,6%.

„Það er óhætt að segja að ef íslenska ríkið eða Seðlabankinn tækju lán af þessari stærðargráðu til að styðja við bankana gæti það haft neikvæð áhrif á lánshæfismat ríkisins. Eins og þú kannski veist eru horfur á lánshæfismatinu nú neikvæðar [hjá Fitch], að mestu vegna þróunar mála í fjármálakerfinu,“ segir Rawkins.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .