Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs er stoltur af því að nú getur bærinn boðið íbúum að skoða á aðgengilegan hátt á vefgátt bæjarfélagsins í hvað peningarnir þeirra fara, en bærinn er fyrsti opinberi aðilinn til að bjóða upp á þessa lausn hér á landi.

„Þú borgar skatt, nú getur þú séð hvert þessir peningar fara,“ sagði Ármann í viðtali við Viðskiptablaðið.

Fyrirmyndin kom frá Texas

Ármann segir að þetta skref sé liður í því að auka þátttökulýðræði í stjórnsýslu bæjarins en hugmyndin kom í raun innan úr henni upphaflega. Starfsmenn bæjarins fóru á ráðstefnu um svona opið bókhald í Texasríki í Bandaríkjunum sem hefur verið framarlega í því að opna bókhald sitt fyrir almenningi.

„Eftir ferðina er gert minnisblað, svo leiðir eitt af öðru, þetta er partur af þessari þátttökuáherslu sem kemur fram í málefnasamningi nýs meirihluta, en ég ætla ekki að gera lítið úr því, að aðrir flokkar hafa verið sammála okkur í þessari nálgun.“

Gæti sýnt krökkum áhrif gerða sinna

Kópavogsbær hefur einnig verið framarlega í öðrum tæknimálum, spurður að því hvort einhver samþætting þar á milli komi til greina svarar hann.

„Allir nemendur okkar, 5. Upp í 10. Bekk, sex bekkir, eru spjaldtölvuvæddir með einhverjum hætti svo það væri áhugaverð hugmynd, því bara það að krakkarnir færu í gegnum þetta myndi sýna þeim betur að þau eru partur af þessu samfélagi,“ segir Ármann.

„Þetta er gott að því leitinu til, að kannski hugsa þau eitthvað þegar einhver freistast til að sparka niður næstu ruslatunnu eða brjóta næsta strætóskýli, nei, við erum partur af þessu samfélagi líka, við erum búnir að sjá hvert peningarnir eru að fara.“

Hræddur við of víðtækar ályktanir

Við skoðun á kerfinu sést að iðulega er hægt að skoða nettótölu tekna og kostnaðar, en þá eru sértekjur málaflokksins dregnar frá.

„Heildartekjurnar þarna eru hærri heldur en þær eru í ársreikningnum, út af þessum innri færslum. Þetta er bólgnara, en við ákváðum að hafa þær með,“ segir Ármann, enda séu millifærslurnar leið bæjarins til að fylgjast með hvernig fjármagni bæjarins er eitt.

„Það sem ég hef lagt áherslu á hérna, er að við höfum ekkert að fela,“ segir Ármann aðspurður hvort þeir hafi engar áhyggjur af því að eitthvað í framsetningunni geti ekki valdið misskilningi.

„Ég vona að fólk sendi okkur þá bara spurningar. Ég er hræddastur við að fólk dragi ályktanir án þess að spyrja okkur. Kannski eru þessar ályktanir algerlega út í bláinn, það fari svo inn á samfélagsmiðlana og svo fari einhver umræða og snjóboltaáhrif af því af stað. Það væri alla vega þægilegt að geta fengið tækifæri til að svara því áður, en þetta er auðvitað eitthvað sem maður ræður ekki við.“