Ármann Kr. Ólafsson, alþingismaður hefur ákveðið að gefa kost á sér í annað til þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ármanni sem var kjörinn á Alþingi árið 2007 og hefur setið í fjárlaganefnd, félagsmálanefnd og samgöngunefnd. Þá hefur hann gegnt formennsku Íslandsdeildar Þings öryggis- og varnarmála í Evrópu.

Ármann er 42 ára stjórnmálafræðingur að mennt, kona hans er Hulda Guðrún Pálsdóttir, handmenntakennari og eiga þau tvö börn, Hermann 15 ára og Höllu Lilju 13 ára. Ármann er Akureyringur að upplagi en bjó einnig  í Öxnadal og á Patreksfirði á sínum yngri árum.

Þá kemur jafnframt fram í tilkynningunni:

Að loknu námi í Háskóla Íslands stofnaði hann ásamt Jóni Sæmundssyni ráðgjafafyrirtækið/auglýsingastofuna ENNEMM og var framkvæmdastjóri um nokkurra ára skeið. Þá hefur hann langa reynslu úr stjórnarráðinu, einkum úr samgöngu- og sjávarútvegsráðuneytinu. Þá hefur hann setið í bæjarstjórn Kópavogs í tæp þrjú kjörtímabil. Ármann hefur átt sæti í fjölda nefnda sem snúa að atvinnumálum, fræðslu- og félagsmálum.

Í þeim málum sem hann hefur lagt fram á þinginu í kjölfar bankahrunsins hefur hann fyrst og fremst horft til endurreisnar íslensks samfélags. Mál þessi snúa að breyttri og bættri samkeppnislöggjöf, nýjum vinnubrögðum við gerð fjárlaga og fjáraukalaga sem miða að því að ná tökum á ríkisrekstrinum.

Einnig hefur hann lagt áherslu á fjölgun úrræða í félagslega íbúðakerfinu og fjölbreyttari atvinnusköpun. Þá hefur hann gagnrýnt harðlega stjórnleysi bankanna sem eru lykillinn að því að heimilin og fyrirtækin í landinu nái vopnum sínum á ný. Ármann óskar eftir umboði til þess að fylgja þessum málum eftir og öðrum verkefnum sem stuðla að bættu umhverfi og endurreisn Íslands.