Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi, segir bæinn hafa ákveðið að kaupa íþróttamannvirki, sem Knattspyrnuakademían ætlaði upphaflega að eiga, þar sem það var áætluð minni fjárbinding fyrir bæinn. Samtals greiddi bærinn ríflega 1,6 milljarð króna fyrir mannvirkin, eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu sem kom út sl. fimmtudag.

Leigusamningar, sem bærinn hafði gert við akademíuna, til 25 ára voru verðtryggðir og því ljóst að þeir hefðu orðið miklu hærri en reiknað hafði verið með, auk þess sem bærinn hefði ekki eignast byggingarnar að leigutíma liðnum.

„Samkvæmt þeim greiningum sem við fengum í hendur er miklu hagstæðara fyrir bæinn að kaupa eignirnar heldur en að leigja þær, sem upphaflega var áformað. Kaupin fela því í sér minni fjárbindingu í þessum mannvirkjum en reiknað hafði verið með upphaflega. Að því leytinu til eru kaupin á mannvirkjunum hagstæðari fyrir bæinn ekki síst þar sem bærinn mun eiga mannvirkin að fullu,“ segir Ármann.

Hann segir einnig að Kópavogsbær njóti góðs af því að hafa átt og rekið eignir með farsælum hætti. Ákveðin stærðarhagkvæmni geti náðst fram við stjórnun með kaupunum þar sem bærinn eigi mikið af mannvirkjum sem séu í rekstri.