Vegna viðtals við Davíð Oddsson í Kastljósi í gær og ummæla hans þar um eignaflutninga frá Bretlandi til Íslands hefur Ármann Þorvaldsson, bankastjóri Singer & Friedlander, sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir meðal annars að engir óeðlilegir fjármagnsflutningar hafi átt sér stað.

Í yfirlýsingunni segir:

1. Engir óeðlilegir eignaflutningar áttu sér stað frá Kaupþing Singer & Friedlander til Íslands í aðdraganda bankahrunsins, hvorki 400 milljónir punda, 800 milljónir punda, né nokkrar aðrar slíkar upphæðir.

2. Það ætti flestum að vera ljóst að ef bresk yfirvöld hefðu talið sig átt eitthvað sökótt við Kaupþing Singer & Friedlander, eða þá Kaupþing, en móðurfélag bankans á töluverðar eignir í Bretlandi, þá hefði engan veginn verið rökrétt að setja hryðjuverkalög á tvo aðra banka – í þessu tilviki Seðlabankann og Landsbankann.

3. Varðandi umrædda lagasetningu má benda á að eignir Landsbankans í Bretlandi voru í útibúi bankans sem þýðir að þær voru eignir íslensks lögaðila. Beiting hryðjuverkalaganna gæti hafa verið úrræði Breta til að tryggja yfirráð yfir þessum eignum sem þeir hefðu annars ekki haft.

Ástæðan fyrir því að þeir töldu sig þurfa að grípa til slíkra aðgerða kann að hafa verið sú að með setningu svokallaðra neyðarlaga á Íslandi og yfirlýsingum ráðamanna, þar með talið seðlabankastjóra, hugðust stjórnvöld setja erlenda kröfuhafa skör neðar en íslenska kröfuhafa þegar kæmi að innheimtu krafna á íslensku bankana. Ummæli ráðamanna á Íslandi fóru ekki framhjá Bretum þó þau hafi verið sett fram á íslensku.

Þetta má meðal annars sjá á umræðum um setningu hryðjuverkalaganna (Landsbanki Freezing Order 2008) í bresku lávarðardeildinni þann 28. október síðastliðinn. Þar sagði Campell-Savour lávarður m.a: „My view is that there is complete failure of Icelanders to understand that alleged statements by David Oddsson on central bank deposits, which triggered a sovereign debt downgrade, placed the UK Government in an impossible position. ... The transcripts of conversation between the two Governments, and statements by the ministeral team in Iceland and by David Oddsson, should be made available in their entirety.”

Undir þetta skrifar Ármann Þorvaldsson