Hinn miðjusækni Armin Laschet bar sigurorð af keppinauti sínum, hinum íhaldssama Friedrich Merz í úrslitaeinvígi um það hvor myndi taka við sem leiðtogi Kristilegra demókrata, CDU, í Þýskalandi. Það gæti þýtt að hann verði þá kanslaraefni flokksins í kosningunum í landinu næsta haust.

Þar mun hann taka við af Annegret Kramp-Karrenbauer sem tók við sem formaður flokksins af Angelu Merkel kanslara landsins, en henni tókst ekki að fylgja flokknum á bakvið sig þó hún væri valin af Merkel til að vera arftaki sinn.

Kristilegir demókratar hafa löngum verið stærsti flokkur landsins, og leiðtogar flokksins, sem iðulega er í samfloti með systurflokki sínum, Kristilega samfélagsbandalaginu, CSU, í Bæjaralandi, verið kanslarar, það er ígildi forsætisráðherra, landsins.

Merkel hætti að leiða flokkinn fyrir tveimur árum

Það er þó ekki alltaf þannig, en núverandi kanslari, Angela Merkel, steig niður úr formannsstólnum fyrir rúmum tveimur árum, og mögulegt er að aðrir í framvarðarsveit flokksins verði valdir sem kanslaraefni hans þegar Merkel hættir sem kanslari í kosningunum í september næstkomandi.

Laschet hlaut 521 atkvæði á móti 466 atkvæðum Merz á ráðstefnu flokksins sem haldin var í dag, í þetta sinn rafrænt vegna heimsfaraldursins. Þriðji keppinauturinn, Norbert Röttgen, datt út í fyrri umferð formannsslagsins.

Merz hefur löngum verið gagnrýninn á Merkel, en hann hefur bæði verið þingmaður CDU á Evrópuþinginu og þingi Þýskalands, en hætti þar árið 2009 og síðan starfað í viðskiptalífinu. Meðal baráttumála hans hafa verið 12% flatur skattur með persónuafslætti, sem og hann hefur verið gagnrýninn fyrir ummæli sín um að innflytjendur verði að „fylgja leiðandi menningu Þýskalands“.

Meðal þess sem Merkel hefur verið gagnrýnin fyrir er að að hafa fært flokkinn það langt inn á miðjuna að rými hafi myndast hægra megin við hann fyrir popúlíska flokkinn Valkost fyrir Þýskaland, AfD, sem upphaflega var stofnaður gegn evrunni, en hefur seinna verið tekinn yfir af þjóðernissinnaðri hópum, meðan stofnandinn sjálfur hefur hrökklast út.

Nýjustu kannanir í Þýskalandi, frá 12. til 14. janúar síðastliðnum, sýna að CDU/CSU bandalagið nýtur stuðnings flestra eða 37% landsmanna, næst koma Græningjar njóta sem 20% fylgis, þar á eftir koma Sósíaldemókratarnir í SPD með 15%, fyrrnefndur AfD er með 10%, Frjálsir demókratar, Vinstriflokkurinn, Links er með 8%, og loks er Frjálsir demókratar, FDP með 5%.

Segir rangt að breyta um stefnu eftir Merkel

Laschet, sem er 59 ára gamall, hefur hins vegar verið tryggur bandamaður Merkel, og sagði hann í formannsslagnum að ef flokkurinn myndi breyta um stefnu núna væri það „algerlega að senda röng skilaboð,“ hefur BBC eftir honum. Laschet hefur verið forsætisráðherra fylkisstjórnar North Rhine-Westphalia frá árinu 2017.

Laschet var löngum talinn sá sem Merkel kysi helst að tæki við af sér, enda studdi hann afstöðu hennar árið 2015 um að taka við um milljón flóttamönnum sem gengu í gegnum Balkanskagann og flúðu yfir Miðjarðarhafið í stórum hópum um það leiti.

Jafnframt er hann þekktur fyrir frjálslyndar skoðanir, mikinn stuðning við ESB og að geta náð til innflytjendasamfélaga. Á hinn bóginn er Merkel talin hafa reiðst því að hann hvatti til þess að aflétta takmörkunum vegna Covid snemma, en hann hefur bakkað frá þeirri afstöðu síðan.

Önnur möguleg kanslaraefni kristilegu flokkanna í Þýskalandi fyrir kosningarnar 26. september næstkomandi gætu orðið Jens Spahn heilbrigðisráðherra landsins og forsætisráðherra Bæjaralands, Markus Söder, sem er jafnframt leiðtogi systurflokksins CSU.