Þegar Hálfdán Óskarsson fór af stað með rekstur á mjólkurvinnslunni Örnu á Vestfjörðum hugðist hann fyrst fá húsnæði Mjólkursamsölunnar á Ísafirði undir starfsemina en fékk ekki að því er segir í umfjöllun Landans á RÚV .

„Við fengum samlagið ekki á leigu þegar við hófum okkar vinnslu og fengum í staðinn leigt húsnæði hér í Bolungarvík,“ segir Hálfdán en Mjólkursamsalan sjálf hafði hætt framleiðslu á mjólkurafurðum á Vestfjörðum vorið 2011.

Hafði allri mjólk verið keyrt suður á Búðardal síðan þá þangað til starfsemi Örnu hófst, en Hálfdán hóf rekstur Örnu í gamla frystihúsi Einars Guðfinnssonar ehf. í Bolungarvík, sem nú er komið í eigu félagsins Kampa.

„Hér hefur okkur gengið vel en okkur vantar viðbót fyrir osta og það passar betur að hafa þá aðskilda frá annari vinnslu og þessvegna er þetta góð lausn og við stefnum að því að byrja framleiðslu núna í maí.“