Arna Lára Jónsdóttir hefur verið ráðin svæðisstjóri Eimskips á Vestfjörðum og Falasteen Abu Libdeh hefur tekið við stöðu sjálfbærnisérfræðings hjá Eimskipafélaginu.

Arna Lára sem lauk MS gráðu í Alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði frá Háskóla Íslands á árinu hefur starfað sem verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands síðustu 13 ár. Hún mun taka við nýja starfinu í upphafi næsta árs.

Falasteen hefur starfað hjá Eimskip síðan 2017 sem sérfræðingur á Mannauðs- og samskiptasviði og hefur hún m.a. leitt kjaraþróun og Jafnlaunavottun hjá félaginu ásamt því að vinna að samfélagsábyrgð. Hún mun nú alfarið snúa sér að sjálfbærnimálum en félagið vinnur að stefnumótun og uppfærðri aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára í þeim málaflokki.

„Eimskip hefur um árabil verið framarlega á sviði samfélagsábyrgðar,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskipafélags Íslands.

„Sjálfbærni er vegferð og jafnvel þó við höfum verið leiðandi í þessum málaflokki á Íslandi þá erum við nú að auka áherslu á málaflokkinn til að tryggja að hann verði samofinn okkar daglegri starfsemi og ákvörðunartöku á alþjóðavísu. Falasteen þekkir sjálfbærnimálin afar vel og ég hlakka til að vinna áfram með henni að þessum mikilvæga málaflokki.“

Falasteen er með BSc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og MPM gráðu í Verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

„Við erum mjög ánægð að fá Örnu Láru til liðs við Eimskip en reynsla hennar úr nýsköpunarmálunum mun koma að góðum notum hjá okkur enda flutningageirinn að þróast heilmikið,“ segir Böðvar Örn Kristinsson, forstöðumaður innanlandsflutninga hjá Eimskip.

„Við erum einnig afar ánægð að fá konu í hóp svæðisstjóra en Arna Lára er fyrsta konan til að gegna því starfi hjá Eimskip. Vestfirðir eru afar mikilvægt svæði í okkar áætlunarflutningum og ekki síður fiskflutningum. Með aukinni netverslun sjáum við einnig tækifæri í að þjónusta Vestfirðinga enn betur þegar kemur að smærri sendingum.“