Í einum grænum ehf., dótturfélag Sölufélags garðyrkjumanna ehf., tók í dag við umsjón sölu- og dreifingarstarfs fyrir vörur Örnu ehf. Arna ehf er mjólkurvinnsla í Bolungarvík sem framleiðir laktósafríar mjólkurvörur.

Fram kemur í tilkynningu um samstarfið að nú er ár liðið frá því vörur Örnu ehf komu á markað. Móttökur hafi verið góðar og er greinileg þörf á markaði fyrir fjölbreytt úrval laktósafrírra mjólkurvara.  Auk nettmjólkur býður Arna upp á AB mjólk, jógúrt, skyr og rjóma í helstu verslunum víða um land.  Allar vörur Örnu eru laktósafríar og þær henta því jafnt þeim sem eiga við mjólkursykursóþol að stríða sem öðrum.

Í tilefni þessa hyggja aðstandendur Örnu ehf á frekari sókn og er samstarfið við Í einum grænum mikilvægur liður í því.  Með því verði þjónusta við viðskiptavini markvissari og hagkvæmari.  Þá hafi verið unnið markvisst að frekari vöruþróun og von er á nýjum vörum á næstunni.