Arna Schram hefur verið ráðin fréttastjóri Viðskiptablaðsins. Hún byrjaði í blaðamennsku árið 1993 og hóf störf á Morgunblaðinu vorið 1995. Þar starfaði Arna samfleytt, sem blaðamaður á innlendri fréttadeild, frá árinu 1996 til loka árs 2006. Lengst af var hún þingfréttamaður. Auk þess skrifaði hún viðhorfs- og þingpistla í Morgunblaðið.

Arna hóf störf á Viðskiptablaðinu í vor en þar á undan var hún skamma hríð á Krónikunni. Arna er stjórnmálafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla. Hún er formaður Blaðamannafélags Íslands. Viðskiptablaðið býður Örnu velkomna til nýrra ábyrgðarstarfa.
Auðbjörg Ólafsdóttir fréttastjóri hefur að eigin ósk ákveðið að láta af störfum. Henni eru færðar þakkir fyrir vel unnin störf og óskað velfarnaðar.