Furðustrandir eftir Arnald Indriðason var sem fyrr vinsælasta bókin síðustu vikuna fyrir jól, þriðju vikuna í röð en bókin er jafnframt mest selda bókin hér á landi á þessu ár.

Þá var skáldsagan Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur í öðru sæti  sem fyrr og Léttir réttir Hagkaups eftir Friðriku Hjördísi Geirsdóttur í þriðja sæti.

Þetta kemur fram í vikulegu yfirliti Rannsóknarseturs verslunarinnar þar sem birtur listi yfir söluhæstu bækurnar hér á landi. Metsölulistinn hefur verið birtur vikulega í desember og byggir á upplýsingum frá  flestum bókaverslunum landsins og öðrum verslunum sem selja bækur (t.d. stórmörkuðum, bensínstöðvum o.fl.).

Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson skaust upp í fjórða sæti listans síðustu vikuna fyrir jól og ýtti ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson niður í fimmta sæti.

Á vef Rannsóknarsetursins kemur fram að á síðustu fimm dögunum fyrir jól seldust tæplega 120 þúsund bækur eða um 24 þúsund bækur á dag.

Yrsa ýtir Mikka mús til hliðar

Sem fyrr segir er Furðustrandir mest selda bókin á árinu en þar á eftir koma Léttir réttir Hagkaups. Þá var Ég man þig í þriðja sæti og ýtti Stóru Disney matreiðslubókinni niður í fjórða sæti en sú bók hélt toppsætinu yfir mest seldu bækurnar langt fram eftir hausti.

Hér að neðan má sjá listann yfir mestu seldu bækurnar í síðustu viku auk metsölulistans á árinu. Athygli vekur að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, sem verið hefur meðal 10 mest selda bóka á árinu, er dottinn af listanum en skýrslan var um tíma mest selda bókin hér á landi.

Metsölulisti 20. desember - 26. desember 2010

  1. Furðustrandir - Arnaldur Indriðason
  2. Ég man þig - Yrsa Sigurðardóttir
  3. Léttir réttir Hagkaups - Friðrika Hjördís Geirsdóttir
  4. Svar við bréfi Helgu – Bergsveinn Birgisson
  5. Gunnar Thoroddsen - Guðni Th. Jóhannesson
  6. Lífsleikni Gillz - Egill Gillz Einarsson
  7. Hreinsun – Sofi Oksanen
  8. Eldað með Jóa Fel  - Jóhannes Felixson
  9. Morgunengill – Árni Þórarinsson
  10. Ljósa – Kristín Steinsdóttir

Uppsafnaður metsölulisti tímabilið 1. janúar - 26. desember 2010

  1. Furðustrandir - Arnaldur Indriðason
  2. Léttir réttir Hagkaups - Friðrika Hjördís Geirsdóttir
  3. Ég man þig - Yrsa Sigurðardóttir
  4. Stóra Disney matreiðslubókin - Ýmsir höfundar
  5. Gunnar Thoroddsen - Guðni Th. Jóhannesson
  6. Eyjafjallajökull - Ari Trausti Guðmundsson & Ragnar Th. Sigurðsson
  7. Lífsleikni Gillz - Egill Gillz Einarsson
  8. Svar við bréfi Helgu – Bergsveinn Birgisson
  9. Hreinsun – Sofi Oksanen
  10. Bók fyrir forvitnar stelpur! - Þóra Tómasdóttir/Kristín Tómasdóttir