Arnaldur Indriðason
Arnaldur Indriðason
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Morð og rannsóknir á þeim hafa skilað glæpasagnahöfundinum Arnaldi Indriðasyni rúmum 600 milljónum króna í samanlagðan hagnað á síðastliðnum átta árum. Félag hans Gilhagi ehf. hagnaðist um 116,2 milljónir króna á síðasta ári. Þetta er 7,7 milljónum meiri hagnaður en félagið skilaði í fyrra. Fyrsta bók Arnaldar, Synir duftsins, kom út árið 1997 og hefur hann komið með nýja bók á hverju ári síðan þá. Sú síðasta, Einvígið, kom út um síðustu jól. Bækurnar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og selst í meira en 7 milljónum eintaka. Arnaldur stofnaði félagið Gilhaga utan um ritstörfin árið 2003. Það hagnaðist um 7 milljónir fyrsta árið.

Situr á meira en 326 milljónum

Í uppgjöri Gilhaga fyrir síðasta ár kemur m.a. fram að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam tæpum 133,7 milljónum króna í fyrra. Þetta er lítilsháttar samdráttur á milli ára en árið 2010 nam hagnaðurinn tæpum 142 milljónum króna. Hagnaður félags Arnaldar nam tæpum 145,3 milljónum króna fyrir skatta í fyrra og greiddi félagið 29 milljónir króna í tekjuskatt.

Uppgjör Gilhaga ber ekki með sér mikil umsvif fyrir utan þó, að félagið er skrifað fyrir rúmlega 24 milljóna króna verðbréfaeign.

Handbært fé Gilhaga nam í lok síðasta árs rúmum 326,4 milljónum króna. Það er 93 milljónum meira en félagið átti í lok árs 2010.