Gilhagi ehf., félag Arnaldar Indriðasonar, hagnaðist um 82,6 milljónir króna í fyrra eftir skatta. Árið 2012 var hagnaðurinn 139,2 milljónir og munar því 56,6 milljónum á milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2013 sem var birtur í vikunni.

Skýringuna á þessum mun er helst að finna í minni rekstrarhagnaði, en hann var 121,4 milljónir 2013 borið saman við 140,2 milljónir árið áður. Arnaldur gaf út skáldsöguna Reykjavíkurnætur árið 2012 og Skuggasund 2013, en sú síðarnefnda var mest selda bók ársins. Þrátt fyrir það dróst rekstrarhagnaður félagsins saman á milli ára.

Gilhagi tapaði 37,8 milljónum vegna gengismunar í fyrra en hagnaðist árið áður um 19,7 milljónir. Mikill munur er á tekjuskattsgreiðslum félagsins á milli ára. Í fyrra greiddi félagið 19,4 milljónir í tekjuskatt en árið áður 34,6 milljónir.

Bókaskrif Arnaldar hafa gefið vel í aðra hönd og til marks um það eru eignir Gilhaga ehf. nú metnar á tæpar 540 milljónir. Þar af eru 104 milljónir bundnar í verðbréfum en 434 milljónir í handbæru fé.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .