Sendiherra Frakka á Íslandi, Philippe O'Quin, sæmdi Arnald Indriðason rithöfund riddaraorðu lista og bókmennta 23. apríl síðastliðinn í embættisbústað sendiherrans. Viðstaddir athöfnina voru ættingjar Arnalds, vinir og samherjar í bókmenntaheiminum á Íslandi og í Frakklandi.

Fram kemur í tilkynningu að lista- og bókmenntaorðunni sé ætlað að „heiðra þá sem skara fram úr í list- eða bókmenntasköpun (...) jafnt í Frakklandi sem annars staðar.“

Með þessari orðu er heiðraður mikill meistari í gerð íslenskra glæpasagna sem er kunnur í Frakklandi og hafður í hávegum þar.

Erlendur Sveinsson lögreglumaður er löngu orðinn heimsfrægur og bækurnar um rannsóknir hans hafa verið þýddar í 37 löndum og miljónir manna hafa lesið þær út um allan heim.

Þrettán bækur Arnalds hafa verið þýddar á frönsku. Sú síðasta, „Reykjavíkurnætur“, kom út í byrjun þessa árs í þýðingu Erics Bourys og hefur hlotið lof gagnrýnenda.

Arnaldur sæmdur orðunni af Phillipe O'Quin.

Arnaldur Indriðason sæmdur frönsku lista- og bókmenntaorðunni.
Arnaldur Indriðason sæmdur frönsku lista- og bókmenntaorðunni.
© Aðsend mynd (AÐSEND)