Glæpasagnahöfundurinn Arnaldur Indriðason hefur fengið samtals 252,1 milljón króna greiddar í arð úr einkahlutafélagi sínu Gilhaga á síðastliðnum átta árum. Ef greiðslunum er dreift jafnt niður nema þær rétt rúmum 2,6 milljónum króna í hverjum mánuði í átta ár. Hæsta arðgreiðslan nam 169 milljónum króna árið 2009.

Arnaldur var með 505 þúsund krónur í mánaðarlaun í fyrra, samkvæmt síðasta Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Hann hefur skrifað sleitulítið síðastliðin fimmtán ár og bækurnar orðnar jafn margar. Bækurnar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og selt í sjö til átta milljónum eintaka.

Arnaldur stofnaði Gilhaga utan um rithöfundagreiðslur sínar árið 2003, sex árum eftir að hann skrifaði sína fyrstu bók, Syni duftsins og áður en hann skrifaði Dauðarósir, Napóleonsskjölin, Mýrina, Grafarþögn og Röddina. Sama ár kom út bókin Bettý. Fimmtánda bók hans, Einvígið, kom svo út um síðustu jól.

Eins og fram kom á vb.is fyrr í dag hagnaðist félag Arnaldar um 116,2 milljónir króna á síðasta ári. Uppsafnaður hagnaður félagsins fór við það yfir 600 milljónir króna. Þá nam handbært fé félags hans 326 milljónum króna um síðustu áramót.