*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 20. september 2013 15:25

Arnaldur með margfalt hærri tekjur en Yrsa

Arðgreiðslur Yrsu Sigurðardóttur skiluðu henni tæpum 800 þúsund krónur á mánuði. Arnaldur var með 3,3 milljónir á mánuði.

Jón Aðalsteinn Bergsvein

Glæpasagnaskrif Arnaldar Indriðasonar skiluðu honum margfalt meiri tekjum í fyrra en stallsystur hans, metsöluhöfundinum Yrsu Sigurðardóttur. Rekstrarhagnaður félags Arnaldar, Gilhagi ehf, nam 142,3 milljónum króna fyrir afskriftir í fyrra og skilaði félag hans 139 milljóna króna hagnaði. Til samanburðar nam rekstrarhagnaður félags Yrsu, Yrsa Sigurðardóttir rétt rúmum 17 milljónum króna í fyrra og nam hagnaður félagsins 13,6 milljónum króna.

Talsverður stærðarmunur er á félögum þeirra Arnaldar og Yrsu. Eignir félags Gilhaga námu 479,5 milljónum króna um síðustu áramót. Þar af var handbært fé upp á 373,5 milljónir króna og óráðstafað fé upp á 424,6 milljónir. Eignir félags Yrsu námu á sama tíma 21 milljón króna. Þar af átti félag Arnaldar verðbréf um síðustu áramót fyrir 96,7 milljónir króna. Félag Yrsu á hins vegar ekkert slíkt, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Þá nam handbært fé félags Yrsu sem heldur utan um ritstörf hennar tæpar 8,5 milljónir króna af handbæru fé. Óráðstafað fé félagsins nemur 13,7 milljónum króna.

Arnaldur launahærri

Himinn og haf er jafnframt á milli arðgreiðslna sem þau Arnaldur og Yrsa greiðar sér. Arnaldur hefur frá síðasta ári greitt sér samtals 294 milljónir króna í arð frá því hans stofnaði félag utan um bókaskrifin árið 2003. Þar af greiddi hann sér 40 milljónir króna í arð vegna afkomu félagsins í fyrra en það jafngildir því að hann hafi haft 3,3 milljónir króna að jafnaði í laun á mánuði.

Á sama tíma greiddi Yrsa sér út 9,5 milljónir króna í arð nú vegna afkomu félagsins Yrsa Sigurðardóttir ehf í fyrra. Samtals hefur hún því fengið 24,9 milljónir króna í arð frá stofnun félagsins árið 2005. Þetta jafngildir því að Yrsa hafi að meðaltali haft um 790 þúsund krónur í laun á mánuði í fyrra vegna bókaskrifanna.