*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 17. júlí 2021 09:55

Arnar kærir forstjóra ÁTVR

Eigandi Santewines segir kæru ÁTVR rógburð og hyggst kæra forstjóra ÁTVR fyrir rangar sakargiftir.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Arnar Sigurðsson, eigandi vínfyrirtækjanna Sante ehf. og Santewines SAS hyggst kæra Ívar J. Arndal, forstjóra ÁTVR, fyrir rangar sakargiftir að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Ríkisfyrirtækið hefur kært Arnar til lögreglu og skattayfirvalda. ÁTVR sakar Arnar um að stunda ólöglega netverslun með vín hér á landi í gegnum Frakkland sem og skattsvik þar sem netverslunin í Frakklandi sé ekki með virðisaukaskattsnúmer en hafi engu síður rukkað virðisaukaskatt af seldum vörum.

Í samtali við Morgunblaðið segir Arnar að ekki standi steinn yfir steini í kæru ÁTVR, sem Ívar, forstjóri ÁTVR, skrifar undir. „Hann hefur ekkert fyrir sér í því annað en þá fullyrðingu að fyrirtæki mitt í Frakklandi sé ekki með virðisaukaskattsnúmer. Hann hefði getað haft samband við skattinn áður en hann lagði af stað í þennan leiðangur og staðreynt að fyrirtækið er með þetta númer, sem er 140848.“ 

Þá standist vart að netverslunin hafi ekki skilað inn virðisaukaskatti enda sé ekki liðið heilt virðisaukaskattstímabil frá því að netverslunin opnaði og hvað þá komið að uppgjöri á skattinum. „Það er erfitt að spá fyrir, sérstaklega um framtíðina en þeir eru kannski betri spámenn en aðrir,“ segir Arnar um stjórnendur ÁTVR. „Ef meiningin hefði verið að svíkjast undan skatti þá er það ekki alveg tímabært.“

Arnar ítrekar að félagið muni borga allar sína skatta og skyldur. „Ég hef aldrei svikist undan skatti og það hefur bara ekki hvarflað að mér. Það er fangelsi við þessu og svona, ekkert mjög aðlaðandi,“ segir Arnar við Morgunblaðið.

Þá furðar hann sig á þessu nýja eftirlitshlutverki ÁTVR sem ríkisfyrirtækinu virðist ekki takast sérlega vel til með. „Mér sýnist þeir jafnvel lélegri í þessu en í vali á vínum.“

Netverslun hans sé að bjóða vörur á 25% lægra verði en í verslunum ÁTVR og það kunni að vera ástæða kæranna. „Þá er kannski bara hægt að grípa til rógburðar eða rangra sakargifta.“