Arnar Laufdal Ólafsson hefur verið ráðinn hótelstjóri á Grand Hótel Reykjavík frá 1. júní og tekur hann við af Ólafi D. Torfasyni sem gegnt hefur starfi hótelstjóra undanfarin 10 ár.

Úr tilkynningu:

„Arnar Laufdal Ólafsson er 41 árs og hefur starfað í veitingageiranum frá unga aldri. Arnar hóf feril sinn á Hótel Borg þar sem hann lærði framreiðslu. Undanfarin 10 ár var hann með eigin rekstur á Broadway og Teiti veisluþjónustu.

Arnar hefur einnig starfað í fjármálageiranum, þ.e. sem viðskiptastjóri hjá Landsbankanum og einnig á eignarstýringarsviði SPH. Arnar nam fjármálafræði við California State University í Chico og útskrifaðist með BS gráðu í fjármálum um jólin 1997.

Arnar er giftur Bryndísi Ólafsdóttur og eiga þau saman þrjú börn.

Gylfi Freyr Guðmundsson hefur verið ráðinn móttökustjóri á Grand Hótel Reykjavík frá 16. maí og tók hann við af Rakeli Óskarsdóttur sem gegnt hafði starfi móttökustjóra undanfarin 4 ár. Gylfi er 31 árs og starfaði á The Merrion Hotel í Dublin frá árinu 2005 þar sem hann var aðstoðarveitingastjóri.

Gylfi er með diplóma í hótelrekstri og ferðaþjónustu frá University Centre César Ritz í Sviss og er hann auk þess með BS gráðu í viðskiptafræði á alþjóðamarkaðssviði frá Tækniháskóla Íslands.

Gylfi er giftur Katarzyna Sosnowska og eiga þau saman tvö börn.“