Bræðurnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir hafa selt hlut sinn í Hanza-hópnum ehf., segir í fréttatilkynningu, en félagið hefur stundað fasteignaviðskipti á höfuðborgarsvæðinu. Söluverðið hefur ekki verið gefið upp.

Merla, fyrirtæki í eigu Róberts Melax kemur inn sem hluthafi í stað bræðranna, en Róbert stofnaði Lyfju og er fyrrverandi eigandi Dags Group. Hann er núverandi forstjóri Open Hand í London.

Hanza-hópurinn byggði meðal annars fjögur lyftuhús á Rafha reitnum svokallaða í Hafnarfirði. Þá stendur hópurinn að endurbyggingu DV-hússins í Þverholti og nýbyggingu verslunar-og íbúðarhúss í miðbæ Hafnarfjarðar. Fyrirtækið er einnig að að reisa 335 íbúðir í Arnarneshæð og þróa nýtt íbúðarhverfi á Kársnesinu í Kópavogi .

Arnar og Bjarki hafa ákveðið að snúa sér að eigin fjárfestingum auk þess sem þeir spila báðir með FH í fótboltanum á næsta tímabili.