Arnar Geir Ómarsson hönnuður og Sigrún Hreinsdóttir þrívíddarhönnuður hafa verið ráðin til starfa hjá H:N Markaðssamskiptum.

Arnar Geir Ómarsson lærði myndlist við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og tók meistarapróf í myndlist frá Háskólanum í Barcelona. Hann starfaði meðal annars á Mættinum og Dýrðinni, Fíton og rak svo sína eigin stofu, Helsinki, í nokkur ár. Arnar Geir er auk þess sagður vera einn af skemmtilegri trommuleikurum landsins og hefur meðal annars spilað með Ham og Apparat Organ Quartet.

Sigrún Hreinsdóttir lærði bæði myndskreytingu í MTM Animation School og Digital Animation (stafræna hreyfimyndagerð) í Centennial College í Toronto í Kanada. Hún hefur meðal annars starfað hjá Intelligent Creatures í Kanada, Miðstræti (nú Janúar Markaðshús) og Sítrus.