*

mánudagur, 1. júní 2020
Fólk 17. september 2019 14:07

Arnar Þór nýr framkvæmastjóri á Íslandi

Arnar Þór Sigurðarson hefur ráðinn framkvæmdastjóri 1xINTERNET á Íslandi, en fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Þýskalandi.

Ritstjórn
Arnar Þór Sigurðarson er framkvæmdastjóri starfsemi þýska félagsins 1xINTERNET á Íslandi.
Aðsend mynd

Fyrirtækið 1xINTERNET hefur ráðið Arnar Þór Sigurðarson sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins á Íslandi. Arnar Þór starfaði áður hjá Reykjavíkurborg árin 2015 til 2017, fyrst sem teymisstjóri rekstrarteymis, en síðan sem deildarstjóri upplýsingatæknideildar þar sem hann leiddi rekstur, þróun og þjónustu í upplýsingatækni.

Á árunum 2012 -2015 starfaði Arnar sem verkefnastjóri hjá Símanum yfir innleiðingahluta nýs reikningagerðakerfis og sem deildarstjóri grunnkerfadeildar Símans. Á árunum 2009-2012 starfaði Arnar í Noregi sem ráðgjafi hjá Capgemini í Stavanger.

Arnar Þór lauk prófi í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2006 ogg er hann giftur Jönu Sturlaugsdóttur og eiga þau þrjú börn. Arnar Þór segist horfa bjartsýnn fram á veginn „1xINTERNET hefur þegar sannað sig sem eitt af leiðandi fyrirtækjum í hönnun og smíði Drupal og React lausna fyrir fjölda opinberra stofnanna og fyrirtækja í Evrópu,“ segir Arnar Þór.

„Drupal er frjáls og opinn hugbúnaður og áhugaverður kostur fyrir þá sem vilja ekki festast í dýrum lokuðum lausnum. Með stofnun 1xINTERNET á Íslandi getum við aðstoðað viðskiptavini okkar enn frekar í að sækja fram og ná árangri með stafrænum lausnum.“

Með höfuðstöðvar í Frankfurt

Fyrirtækið 1xINTERNET sérhæfir sig í stafrænum lausnum fyrir fyrirtæki og er með höfuðstöðvar í Frankfurt, en hefur verið umsvifamikið á Íslandi síðustu ár og unnið með fjölda íslenskra fyrirtækja. Má þar nefna Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Ríkisútvarpið, Listaháskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, Mikluborg, Pennan/Eymundsson, Hugverkastofu, Eldum rétt, Vinnumálastofnun og áfram mætti telja.

1xINTERNET er einnig með skrifstofu í Conil á Spáni og Berlin, auk þess sem starfsfólk fyrirtækisins er með vinnustöðvar í Budapest, Munchen, Barcelona og Osló. Hjá fyrirtækinu starfa nú 30 starfsmenn.

Framkvæmdastjóri 1xINTERNET í Þýskalandi er Baddý Sonja Breidert, sem situr einnig í stjórn Drupal Association Inc. sem rekur drupal.org og sameinar alþjóðlegt samfélag Drupal hugbúnaðarins sem er stærsta samfélag opins hugbúnaðar í heiminum með yfir milljón notendur og yfir 100 þúsund virka þáttakendur.

„Við erum mjög spennt að fá Arnar til liðs við okkur til að styrkja samband okkar við íslensku viðskiptavini okkar.„ segir Baddý Sonja Breidert.