Í framhaldi af opnun nýrrar skrifstofu Samskipa í Þórshöfn í Færeyjum í lok september sl. hefur nú verið ákveðið að fjölga ferðum félagsins þangað. Frá og með annarri viku í desember munu skip félagsins, Arnarfell og Helgafell, hafa viðkomu í Þórshöfn á leið sinni frá Evrópu til Reykjavíkur. Fyrsta viðkoma þar verður 13.desember nk.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að þetta er gert til að bæta enn frekar þjónustu Samskipa við innflytjendur og aðra viðskiptavini í Færeyjum. Verður félagið nú vikulega með beinar siglingar til Þórshafnar frá Evrópu og Norðurlöndunum. Þannig getur varningur sem skipað er um borð í skip Samskipa á föstudegi í Árósum, verið kominn til Þórshafnar á mánudegi, eða aðeins þremur dögum síðar.

Aðeins rétt rúmlega hálft ár er liðið frá því að Samskip hófu siglingar til Klakksvíkur í Færeyjum, á leið frá Íslandi til Bretlands og meginlands Evrópu. Hafa Skaftafell og Akrafell viðkomu þar vikulega