*

sunnudagur, 16. febrúar 2020
Innlent 22. ágúst 2018 10:06

Arnarlax á leið í norsku Kauphöllina

Laxeldisfyrirtækið Arnarlax stefnir á skráningu á markað í norsku Kauphöllina innan tveggja ára.

Ritstjórn
Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax.

Laxeldisfyrirtækið Arnarlax stefnir á skráningu á markað í norsku Kauphöllina innan tveggja ára. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Eftir að hafa lokið við 2,6 milljarða króna hlutafjáraukningu í sumar stefnir fyrirtækið á markað. Hlutafé var aukið um 12% en hluthafar í Arnarlax lögðu fram 60% af hlutafjárinu á móti 40% sem kom frá sænskum og norskum fjárfestum.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax segir í samtali við Fréttablaðið að laxeldisfyrirtækin geti orðið stærri en útgerðirnar með tímanum. 

Arnarlax var stofnað árið 2009 af feðgunum Matthíasi Garðarssyni og Kristian Matthíassyni ásamt hópi Bílddælinga. Kjartan var kjörinn stjórnarformaður félagsins árið 2013 en fyrirtækið réðst í fyrstu hlutafjáraukninguna 2014 að virði 640 milljónir króna á gengi dagsins í dag.

„Þá fengum við inn breiðan hóp af fjárfestum og sama ár settum við fyrstu laxana í sjó,“ segir Kjartan.