*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 27. maí 2016 17:51

Arnarlax og Fjarðalax sameinast

Arnarlax og Fjarðalax hafa skrifað undir samning um sameiningu. Félagið mun hafa 8.000 tonn eldisleyfi í þrem fjörðum.

Ritstjórn

Arnarlax og Fjarðalax hafa skrifað undir samning um sameiningu félaganna undir nafni Arnarlax. Gert er ráð fyrir að sameiningin taki gildi fyrir lok júní. Samhliða mun Salmar, eitt stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi, koma með afgerandi hætti inn í hluthafahóp Arnarlax og mun verða kjölfestufjárfestir með Bíldælingunum og feðgunum Matthíasi Garðarssyni og Kristian Matthíassyni. 

Í tilkynningu frá félögunum segir að sameiningin efli mjög fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum. „Það er mikil samlegð fólgin í sameiningunni og öll uppbygging verður markvissari. Félagið sækir auk þess nýtt hlutafé til að fjármagna metnaðarfull plön og styrkja þetta stærsta eldisfyrirtæki á Íslandi sem mun strax í ár framleiða tæp 10.000 tonn og velta tæpum 6 milljörðum. Félagið hefur alla burði til að verða verulega umsvifamikið á alþjóðlegum laxamarkaði.“

Félagið mun hafa 8.000 tonn eldisleyfi í þrem fjörðum; Arnarfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. Félagið er auk þess með umsóknir í ferli og gerir ráð fyrir að tvöfalda þessi leyfi innan árs og stefnir á rúmlega 20.000 tonna framleiðslu 2020. Félagið hefur þegar lagt fram umsókn um leyfi í Ísafjarðardjúpi með fyrirhugaða starfsstöð á Bolungarvík og er sú framkvæmd þegar komin í umhverfismatsferli.

Forstjóri félagsins verður Kristian Matthíasson og er hann með aðsetur á skrifstofu félagsins á Bíldudal.

Stikkorð: Arnarlax