Laxeldisfyrirtækið Arnarlax skilaði 16 milljóna evra tapi á síðasta rekstrarári, eða sem nemur tæplega 2,2 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 587 þúsund evra tap árið áður. Rekstrartekjur fyrirtækisins drógust saman á milli ára og námu 42 milljónum evra samanborið við 67 milljónir evra árið 2017. EBITDA afkoma félagsins var neikvæð um 3 milljónir evra. Eignir Arnarlax námu 106 milljónum evra og eigið fé nam 58 milljónum evra. Eiginfjárhlutfall var því 55% í árslok 2018. Skuldir námu 47 milljónum evra og lækkuðu um 9,5 milljónir evra frá fyrra ári.

Laun og launatengd gjöld námu 8,4 milljónum evra og lækkuðu um 1,4 milljónir evra frá árinu 2017. Þó fjölgaði um tvö stöðugildi hjá félaginu frá fyrra ári, en 100 manns störfuðu að meðaltali hjá Arnarlaxi í fyrra. Björn Hembre er forstjóri Arnarlax.