Íslenska laxeldisfyrirtækið Arnarlax, sem væntanlega heitir eftir laxeldi í Arnarfirði á Vestfjörðum þar sem umsvif þess eru mikil, mun breyta um nafn, í Icelandic Salmon.

Nafnabreytingin er gerð í aðdraganda þess að félagið skoðar undirbúning á skráningu í norsku kauphöllinni og hlutafjárútboð samhliða. Jafnframt var Leif Inge Nordhammer, fyrrum forstjóri og stærsti eigandi SalMar, skipaður í stjórn félagsins.

Er stefnan að félagið gefi út nýja hluti fyrir um 10% alls hlutafjár í félaginu, eða 5,32 milljón hluti sem færi heildarmagn hlutafjár í félaginu í 53,2 milljón norskar krónur, að því er fram kemur í Undercurrent news. Félagið, sem er að meirihluta í eigu norska laxeldisfyrirtækisins SalMar, mun þó áfram starfa undir íslenska nafninu hér á landi að því er Morgunblaðið greinir frá.

Gangi fyrrnefnd hlutafjáraukning eftir samsvarar nafnvirði hlutabréfa félagsins um 797 milljónum íslenskra króna, en bréf félagsins standa nú í um 130 norskum krónum á Note markaðnum, og heildarverðmæti hluta í félaginu 3,5 milljarðar norskra króna, sem samsvarar um 52 milljörðum íslenskra króna.

Ef það verð helst við hlutafjárútboðið væri félagið einungis 10 milljörðum undir verðmæti Haga í íslensku kauphöllinni og tvöfalt verðmætara en hvort um sig Eimskip og Icelandair nú.