© Aðsend mynd (AÐSEND)

Arndís Björk Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík í ár.

Fram kemur í tilkynningu að Arndís var dagskrárgerðarmaður á tónlistardeild Ríkisútvarpsins frá 2002 - 2013 þar sem hún gerði fjölmarga þætti um klassíska tónlist bæði fyrir útvarp og sjónvarp auk þess sem hún hafði umsjón með beinum útsendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Arndís starfaði fyrir Listahátíð í Reykjavík sem verkefnastjóri á árunum 2005-2007. Einnig hefur hún verið verkefnastjóri Reykholtshátíðar frá 2006 og Reykjavik Midsummer Music í Hörpu frá 2012.

Eftir framhaldsnám í píanóleik í Prag í Tékklandi starfaði hún sem píanókennari við Nýja tónlistarskólann. Hún var formaður Íslandsdeildar Evrópusambands píanókennara um árabil og átti þátt í að setja á laggirnar Píanókeppni Íslandsdeildar EPTA árið 2000 en keppnin hefur verið haldin á þriggja ára fresti síðan. Arndís tekur við starfinu af Steinunni Þórhallsdóttur.

Tuttugasta og áttunda Listahátíð í Reykjavík verður haldin dagana 22. maí til 5. júní 2014. Dagskrá hátíðarinnar verður kynnt í byrjun mars. Hanna Styrmisdóttir er stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík og Ingi Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóri.