Arndís Thorarensen hefur verið ráðin sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf hjá sænska fjármálafyrirtækinu ScandCap AS. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ScandCap.

Arndís hefur starfað sem framkvæmdastjóri verslana og veitingastaða Lifandi markaðar síðan árið 2009. Áður starfaði hún sem lektor og verkefnastjóri hjá Viðskiptadeild og við Stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík. Hún lauk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011 en hún er einnig með BS gráðu í hagnýtri stærðfræði frá Coastal Carolina University.

ScandCap var stofnað árið 2005 og starfa fimmtán manns á skrifstofum félagsins í Stokkhólmi og á Höfðatorgi í Reykjavík. Fyrirtækið sérhæfir sig í að veita fyrirtækjum, stórum sem smáum, samtökum og opinberum aðilum margvíslega fjármálatengda þjónustu - á Íslandi, í Skandinavíu og Norður-Evrópu. Einkum felst starfsemi þess í ráðgjöf við fjármögnun fyrirtækja, fjárhagslegri endurskipulagningu, verðmötum auk aðstoðar við kaup, sölu og samruna fyrirtækja. Fyrirtækið hefur átt í vaxandi viðskiptum á Íslandi undanfarin ár og stýrði meðal annars sölunni á íslenska fyrirtækinu Betware sl. haust en sala fyrirtækisins til austurrískrar samsteypu var ein stærsta fjárfesting erlendra aðila á Íslandi á síðustu árum. ScandCap hóf nýlega rekstur skrifstofu á Íslandi og er framkvæmdastjóri félagsins Jónmundur Guðmarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.