Einn af frumkvöðlum í íslenskri flugsögu, Arngrímur B. Jóhannsson flugstjóri, er núna að ljúka ferli sínum sem flugstjóri í atvinnuflugi. Hann verður 65 ára í apríl byrjun og samkvæmt íslenskum loftferðarlögum verður hann þá að hætta störfum sem atvinnuflugmaður. Flugmaður með Arngrími í þessari ferð er Gunnar sonur hans og flugvélstjóri er Stefán Bjarnason, gamall vinur og samstarfsmaður til margra ára. Í tilefni lokanna verður honum haldið samsæti á Apótekinu í dag kl. 17 til 20.

Arngrímur hefur verið í framvarðarsveit íslenskra flugmála í meira en þrjá áratugi en afskipti hans af flugmálum hófust fyrir 51 ári. Það var árið 1954, að hann fór í fyrstu flugferðina sína á Grunau IX renniflugu Svifflugfélags Akureyrar á Melgerðismelum. Eftir það átti flugið hug hans allan. Flugnám stundaði Arngrímur hjá Tryggva Helgasyni á Akureyri og síðan í Reykjavík.
Hann stundaði svo nám við Loftskeytaskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem loftskeytamaður.

Að loknu námi var Arngrímur um tíma til sjós og var m.a. loftskeytamaður á togaranum Harðbaki frá Akureyri. Árið 1959 hóf hann störf hjá Flugmálastjórn Íslands og starfaði flar til ársins 1964 við uppsetningu, eftirlit og viðgerðir á flugleið sögutækjum á Norður- og Austurlandi. Arngrímur var svo við nám í Tækniskólanum í Osló á árunum 1964 til 1966. Árið 1964 stofnaði hann ásamt fleirum Flugfélagið Frey en félagið stundaði leiguflug frá Akureyri.

Vorið 1966 réðist Arngrímur til starfa sem flugmaður á Douglas DC-3 Dakota hjá Flugfélagi Íslands og var þar næstu tvö árin. Eftir að Biafra-stríðið braust út gerðist Arngrímur starfsmaður flugfélagsins Flughjálpar, sem sá um að koma matvælum og öðrum nauðþurftum til stríðshrjáða íbúa Bíafra. Starfaði hann þar fyrst sem radíómaður en gerðist síðan flugmaður á Douglas DC-6B.

Fljótlega eftir heimkomuna frá Biafra réðist Arngrímur til Loftleiða sem siglingafræðingur en var fljótlega lánaur til hins nýstofnaða flugfélags Cargolux, sem flugmaður á Canadair CL-44. Hjá Cargolux starfaði hann til ársins 1974 en þá gerðist hann yfirflugstjóri flugfélagsins Air Viking sem Guðni Þórðararson, kenndur við ferðaskrifstofuna Sunnu, rak. Air Viking, sem var með þrjár þotur af gerðinni Boeing 720, tók snemma að sér að fljúga fyrir önnur flugfélög og varð félagið fyrst íslenskra
flugfélaga til að fljúga með pílagríma til og frá Jeddah í Saudí Arabíu.

Eftir að Air Viking hætti snemma árs 1976 var Arngrímur Jóhannsson einn aðalhvatamaðurinn að stofnun Arnarflugs. Arngrímur sat í stjórn Arnarflugs um árabil og var yfirflugstjóri félagsins og þjálfunarflugstjóri þar til að hann hætti störfum þar árið 1983. Ári síðar stofnaði Arngrímur ásamt fleirum flugfélagið Air Arctic, sem starfaði við leiguflug og leigu á flugvélum til annarra flugfélaga. Þetta flugfélag réði yfir þremur Boeing 707 þotum og var Arngrímur yfirflugstjóri félagsins og stýrði jafnframt rekstri þess.

Arngrímur hefur alltaf haft mikinn áhuga á flugkennslu og flugöryggismálum. Hann hefur í gegnum tíðina verið ötull við að miðla af reynslu sinni og þekkingu. Á árunum 1982 til 1987 var hann einn eigenda Flugskólans Flugtaks og tók virkan þátt í störfum
þess þegar aðstæður leyfðu.

Í febrúar árið 1986 stofnaði Arngrímur Flugfélagið Atlanta. Er sagt að Flugfélagið Atlanta hafi verið stofnað við eldhúsborðið og að allar stærri ákvarðanir, sem teknar voru á fyrstu árum félagsins hafi verið teknar þar. Jafnframt því að vera starfandi stjórnarformaður félagsins hefur Arngrímur sinnt störfum flugstjóra á ýmsum flugvélategundum og verið þjálfunarflugstjóri á Boeing 737, Lockheed TriStar og Boeing 747. Það er langur vegur frá þessu eldhúsborði að því flugfélagi sem Air Atlanta Icelandic er í dag.

Félagið var stofnað til þess að veita eigendum vinnu, en núna nítján árum seinna er það stærsta flugfélag sinnar tegundar í heiminum. En nú eru ákveðin tímamót hjá Arngrími. Hann á að baki tæplega 19.000 flugtíma
auk 200 flugtíma í svifflugi og um 600 flugtíma sem loftsiglingafræðingur. Þó að Arngrímur hætti nú að stýra flotum um loftin blá verður hann áfram viðloðandi flug um ókomin ár. Hann er mikill áhugamaður um flug og sem allt tengist flugi. Hann hefur veri forseti Flugmálafélags Íslands nú um nokkura ára skeið, en þetta félag er regnhlífasamtök áhugamannafélaga í flugíþróttum rétt eins ÍSÍ sinnir öðrum íþróttagreinum. Ennfremur hefur hann verið atkvæðamikill í listflugi og flugvélasmíði.

Fyrir tilstilli Arngríms er árlega haldið Íslandsmót í listflugi þar sem allir helstu listflugmenn landsins sýna getu sína í listdansi háloftanna og keppa um Atlantabikarinn.

Í flugskýi Arngríms á Tungubökkum í Mosfellsbæ kennir margra grasa. Þar
eru heimasmíðaðir fákar háloftanna innan um kennsluflugvélar fyrri tíma. Arngrímur er mikill áhugamaður um flugsögu Íslands og varðveislu flugminja og situr í stjórn Flugminjasafnsins á Akureyri.

Þannig nær ferill Arngríms til 51 ára. Arngrímur Brynjar Jóhannsson lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun úr síðasta atvinnufluginu sínu, í þetta skiptið frá Kúbu. Það er að vissu leyti táknrænt því hann átti þátt í því að fljúga Íslendingum fyrst til Kúbu í leiguflugi á áttunda áratugnum. Í dag, eftirmiðdaginn 29.mars mun verða haldið veglegt hóf kappanum til heiðurs á Apóteki í Austurstræti frá kl 17 - 20 þar sem vinir og velunnarar koma saman, gleðjast með honum, fara yfir hans feril og hylla kappann.

Byggt á samantekt sem send var út af Avion Group vegna starfsloka Arngríms.