Sá sem komst lífs af þegar flugvél fórst í Barkárdal vestan við Akureyri í gær er Arngrímur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri flugfélagsins Atlanta og flugstjóri. Hinn maðurinn, sem lést í slysinu, er erlendur og ekki hægt að gefa nafn hans að svo stöddu.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fann flugvélina kl. 21 í gærkvöldi í Barkárdal, sem liggur inn af Hörgárdal, á Tröllaskaga. Mennirnir lögðu af stað frá Akureyri kl. 14 í gær og var lending áætluð í Keflavík kl. 16:20. Samhæfingarstöð ríkislögreglustjóra var svo ræst upp úr kl. 17 þegar ljóst var að vélin hafði ekki skilað sér til Keflavíkur.

Arngrímur var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur í gærkvöldi. Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan hans.