Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ og núverandi oddviti sjálfstæðismanna í minnihluta bæjarstjórnar, segist Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins bera ábyrgð á þeirri stöðu sem komin er upp í fjármálum Reykjanesbæjar.

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ eiga nú í viðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu skulda bæjarfélagsins og er stefnt að því að niðurstaða þeirra viðræðna liggi fyrir á næstu vikum. Þetta kom fram í tilkynningu frá bænum í dag. Þar segir að líkt og áður hafi komið fram sé fjárhagsstaða bæjarfélagsins alvarleg. Ef viðræður við kröfuhafa skili ekki árangri geti komið til greiðslufalls á skuldbindingum bæjarfélagsins í framtíðinni.

Spurður að því hvort hann beri ekki nokkra ábyrgð á stöðunni, sem fyrrverandi bæjarstjóri segir Árni að hann haldi að han beri ábyrgð á því að við erum búin að byggja gott og öflugt samfélag. „Við erum búin að vera að byggja hér atvinnulífið, við erum búin að vera að standa okkur vel í menntun og ég skal bera ábyrgð á því. Jafnframt hefur ekki gengið að ná upp ýmsum verkefnum, sérstaklega í atvinnumálum. Það er mikill kostnaður og það er það sem við erum að glíma við. Svo ég skal alveg bera ábyrgð á þessu öllu.“