Magnús Bjarnason hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri Icelandic Group, en hann hefur stýrt félaginu síðastliðin tvö ár. Árni Geir Pálsson, stjórnarmaður í Icelandic Group, hefur að beiðni stjórnar fallist á að taka að sér starf forstjóra hjá félaginu. Jóhann Gunnar Jóhannsson, fjármálastjóri Icelandic, mun samhliða núverandi starfi verða staðgengill forstjóra.

Árni Geir Pálsson, sem tekur við forstjórastarfi Icelandic Group, hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2011. Hann lauk Cand Oecon prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands af framleiðslu- og stjórnunarsviðum árið 1989 og lauk MSc prófi í alþjóðaviðskiptum með áherslu á stjórnun og stefnumótun frá Copenhagen Business School árið 1999.

Árni Geir hefur á undanförum árum verið sjálfstætt starfandi rekstrarráðgjafi. Á árunum 2006-2008 var hann framkvæmdastjóri Median, sem er sérhæft hugbúnaðarfyrirtæki og vinnsluaðili á sviði greiðslumiðlunar, og 2005-2006 var hann framkvæmdastjóri Latabæjar. Á árunum 2000-2005 var Árni Geir framkvæmdastjóri fyrirtækjaþróunar hjá Icelandic Group (SH) en þar áður þróunarstjóri hjá Frjálsri fjölmiðlun, eigandi auglýsingastofunnar Mátturinn og dýrðin, kynningarstjóri Samskipa og verðbréfamiðlari hjá VÍB.

„Icelandic Group hefur á undanförnum árum tekist á við margar krefjandi aðstæður og breytingar. Nú síðast með sameiningum félaga í Bretlandi sem Magnús Bjarnason hefur leitt. Ég vil nota tækifærið og þakka Magnúsi störf fyrir félagið og óska honum velfarnaðar í framtíðinni. Ég fagna því að fá Árna Geir Pálsson til starfa fyrir félagið. Reynsla hans og þekking á Icelandic mun nýtast félaginu vel,” segir Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group.