Fjárfestarnir Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson, sem eitt sinn áttu Húsasmiðjuna, eru í leiðandi hlutverki í þeim hópi fjárfesta sem hyggst kaupa um þriðjungshlut í smásölurisanum Högum. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Þeir Árni og Hallbjörn eru á meðal þeirra fjárfesta sem buðu hæst í kjölfestuhlut í Högum í samstarfi við Stefni, sjóðsstýringarfyrirtæki í eigu Arion banka. Arion banki heldur sem stendur á 95,7% hlut í Högum.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að tilboð hópsins í þriðjung hlutabréfa sé mjög nálægt því virði sem Arion bókfærir Haga á. Samkvæmt ársreikningi 1998 ehf., fyrrum móðurfélags Haga, fyrir árið 2009 var virði allra hlutabréfa í fyrirtækinu um 12,5 milljarðar króna í lok þess árs. Þriðjungshlutur er því rúmlega 4 milljarða króna virði.

Fullyrt hefur verið við Viðskiptablaðið að gengið verði frá sölu á kjölfestuhlutnum á næstu dögum.