Árni Hauksson, stjórnarmaður í 365 [ 365 ], hefur selt öll bréf sín í afþreyingar- og fjölmiðlafyrirtækinu fyrir  um 13 milljónir króna.  Salan kemur í kjölfar yfirstandi kauptilboðs 365 til hluthafa á genginu 1,2 á hlut, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Gengi 365 hefur lækkað um 66% á síðustu tólf mánuðum, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður 365. Aðrir í stjórn félagsins eru Pálmi Haraldsson, Magnús Ármann og Þorsteinn M. Jónsson.

Ari Edwald, forstjóri 365, sagðist  í samtali við Viðskiptablaðið þegar tilkynnt var um yfirtökutilboðið gera ráð fyrir að nærri 95% hluthafa muni taka þátt í að afskrá félagið. Á þeim tíma höfðu yfir 85% hluthafa skuldbundið sig til að taka þátt í afskráningunni.