„Það liggur ekkert fyrir og við höfum enga ákvörðun tekið,“ segir Árni Hauksson, fjárfestir og stjórnarformaður Haga, spurður að því hvort hann og Hallbjörn Karlsson ætli að gefa kost á sér í stjórn Haga á ný eftir að félag þeirra seldi stóran hlut í félaginu.

Greint var frá því á mánudag að félag þeirra, Hagamelur, hefði selt 77 milljónir hluta í Högum fyrir 3,2 milljarða króna. Hagamelur keypti ásamt öðrum fjárfestum árið 2011 34% hlut í Högum fyrir 4,1 milljarð króna. Það jafngilti 10 krónum á hlut. Þegar Hagamelur seldi hlut sinn í vikunni stóð gengi hlutabréfanna í 42 krónum á hlut. Eftir viðskiptin á Hagamelur um 18,7 milljónir hluta í Högum.