Stjórn Haga hefur lagt á það áherslu að hluthafar geti gengið að arðgreiðslum vísum og að þær vaxi jafnt og þétt í áranna rás, að sögn Árna Haukssonar, stjórnarformanns Haga. Hann skrifar um afkomu Haga í nýjustu ársskýrslu félagsins og kemur þar á meðal inn á arðgreiðslustefnuna. Hann segir m.a. að af þessum sökum hljóði arðgreiðslustefnan ekki upp á fast hlutfall af hagnaði eins og oft tíðkist hérlendis enda væru þá meiri líkur á að arðgreiðslurnar myndu sveiflast upp og niður. „Það er gaman að taka við arði og vonbrigðin yrðu mikil árið sem enginn arður yrði greiddur,“ skrifar Árni.

Stjórn Haga leggur til við næsta aðalfund 7. júní næstkomandi að arður verði aukinn úr 45 aurum á hlut í 50 aura. Arðgreiðslan fer því úr 527 milljónum króna sem greiddar voru út í fyrra í 590 milljónir nú. Arðgreiðslan nú jafnast á við 20% af hagnaði síðasta árs. Hagamelur, félag þeirra Árna og Hallbjörns Karlsonar á 7,86% hlut í Högum. Miðað við það fá þeir tæpar 48 milljónir króna af arðgreiðslunni. 

Líklegt að arðgreiðslur muni aukast

Árni segir í inngangsorðum skýrslunnar að arðsemi eigin fjár Haga hafi verið afbragðsgóð undanfarin ár en hún var um 40% á síðasta rekstrarári. Hann telur m.a. líkur á að ávöxtun eigin fjár muni lækka og arðgreiðslur vaxa.

„Því má velta fyrir sér hvers vegna félagið greiðir arð þegar betra væri að geyma sem mest af fjármunum hluthafa í rekstrinum sjálfum. Í þessu ljósi hefur arðgreiðslum einmitt verið stillt í hóf hingað til og var arðgreiðsla síðasta árs til dæmis vel innan við fjórðungur af hagnaði ársins. Ávöxtun eigin fjár Haga mun hins vegar óhjákvæmilega lækka á næstu árum og þá er eins víst að arðgreiðslur munu vaxa. Nettó vaxtaberandi skuldir Haga hafa lækkað um tæpa 5 milljarða króna frá því fyrir tveimur árum. Einnig hefur félagið fjárfest í fasteignum undir verslanir þess og greitt eigendum sínum arð,“ skrifar Árni Hauksson.