„Mér finnst orðið ansi þröngt þarna úti á Granda,“ segir Árni Pétur Jónsson, framkvæmdastjóri Iceland-verslunarinnar. Verslunin ætlar að loka við Fiskislóð úti á Grandagarði í sumar og mun Nettó taka við húsnæðinu í ágúst. Iceland, sem er hluti af breskri verslanakeðju, opnaði fyrstu versluna hér á landi við Engihjalla í Kópavogi í júlí í fyrrasumar og aðra við Fiskislóð í desember í fyrra. Árni Pétur segir í samtali við vb.is að fyrirtækið hafi verið að gera ákveðna tilraun við Fiskislóð sem ekki hafi gengið upp.

Hann bendir á að verslanir Iceland í Bretlandi séu alla jafna frekar litlar, um 450 til 400 fermetrar að flatarmáli. Sú við Fiskislóð hafi verið þrisvar sinnum stærri, heilir 1.500 fermetrar.

„Við gerðum tilraun til að opna stóra búð. En niðurstaða okkar er sú að þetta var of stórt og heldur illa utan um konseptið. Verslunin virkar skringleg vegna þess að plássið er stórt,“ segir hann og bætir við að leitað sé að hentugra húsnæði í stað þeirrar sem lokar.

Árni Pétur gerir ekki ráð fyrir því að Iceland opni aðra verslun úti á Grandagarði eða þar í nágrenninu. Eins og fram kom á vb.is í gær eru verslanir Bónuss og Krónunnar á svipuðum slóðum og verslanir Víðis og Nóatúns ekki langt frá.