Creditinfo hefur sett á fót nýtt stöðugildi umboðsmanns lántakenda. Er umboðsmanni ætlað að vinna að því að auka aðgengi fólks að upplýsingum um sig sjálft og kanna sjálfstætt hvers kyns ágreiningsmál.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Creditinfo en umboðsmaður mun einnig hafa eftirlit með viðskiptavinum félagsins, hvað starfsleyfisskyldar upplýsingar varðar.

Fram kemur að starf umboðsmanns á sér ýmis konar fyrirmyndir, bæði hérlendis og erlendis, sem tekið verður mið af og mótað að starfsemi Creditinfo. Umboðsmanni er einnig ætlað að auka samstarf við aðra hagsmunaaðila, m.a. í þeim tilgangi að sjá þeim fyrir ýmis konar tölfræðilegum upplýsingum um sögu og líklega þróun alvarlegra vanskila hérlendis.

Umboðsmaður lántakenda er Árni J. Magnús. Hann hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1997 og gegndi síðast stöðu forstöðumanns þjónustusviðs Creditinfo.