Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri hefur ákveðið að kæra Árna Johnsen. Ástæðan er ummæli Árna um Gunnar í Morgunblaðinu í dag.

Í yfirlýsingu frá Gunnari segir að Árni vegi að honum sem opinberum starfsmanni og lögfræðingi:  „Því hef ég ákveðið að kæra Árna Johnsen til lögreglu fyrir brot á 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 242. gr. sömu laga. Þar kemur fram, að hafi ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun verið beint að manni sem er opinber starfsmaður og móðgunin eða aðdróttunin varðar að einhverju leyti starf hans, þá skal slíkt brot sæta opinberri ákæru eftir kröfu hans."

Í grein Árna í Morgunblaðinu í dag segir meðal annars:

„Það spruttu ótrúlegar setningar á fundi fyrir liðlega einu ári í Vegagerðinni þegar einn af sérfræðingum landsins spurði Hrein hvort Vegagerðin stæði að 70-90 milljarða kostnaðaráætluninni sem kom fram í einni „pöntuðu skýrslunni“. „Nei“, svaraði Hreinn, „það er tóm vitleysa.“

„Hvað teljið þið þá að það kosti að gera Eyjagöng?“ spurði háskólasérfræðingurinn. „Það gæti kostað 30 milljarða, ja, 30-40 milljarða,“ svaraði Hreinn. Þá kallaði vegamálastjóri þá fram í, „það kostar ábyggilega 50 milljarða eða meira.“ „Ja, það gæti verið nær 40 milljörðunum,“ sagði Hreinn þá. Þessir ágætu menn voru að prútta um kostnað við gerð Eyjaganga upp í opið geðið á okkur. Ótrúlegt."

UPPFÆRT : Árni Johnsen segir í samtali við vb.is að hann standi við orð sín. Gagnrýni hans á aðstoðarvegamála sé hófleg og sé beint gegn slælegum vinnubrögðum.