Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagði á fundi með sjálfstæðismönnum í dag að bankarnir og fjármálakerfið hefði aldrei heyrt undir fjármálaráðuneytið, á einn eða annan hátt, fyrr en eftir setningu neyðarlaganna 6. október.

„Fram að þeim tíma hafði fjármálaráðuneytið ekkert með þetta kerfi að gera."  Árni var þarna að svara fyrirspurn um það hvort einhver hefði axlað ábyrgð í kjölfar hruns fjármálakerfisins.

Árni sagði það ekki alls kostar rétt að enginn hefði sætt ábyrgð. Hann nefndi þar fyrsta til sögunnar bankastjóra gömlu bankanna og stjórnendur þeirra og eigendur. Þeir hefðu allir tapað sínum stöðum og eignum.

Samfylkingin hafi tafið frumvarp um sérstakan saksóknara

Hann benti á í framhaldinu að sérstakur saksóknari hefði nú hafið störf. Hans hlutverk verður að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í kjölfar bankahrunsins. Árni sagði að sú vinna væri lengra á veg komin hefði Samfylkingin ekki tafið afgreiðslu málsins á þingi. „Þá væru fleiri farnir að horfa framan í það að þeir þyrftu að sæta ábyrgð," sagði hann.

Árni nefndi því næst að forstjóri og stjórnarmenn Fjármálaeftirlitsins hefðu látið af störfum. FME væri sú eftirlitsstofnun sem hefði haft eftirlit með bankakerfinu. Hann sagði enn fremur að viðskiptaráðuneytið hefði yfirumsjón með eftirlitskerfinu og bönkunum. Viðskiptaráðherra hefði nú sagt af sér.

Breyta þarf lögum til að víkja Seðlabankastjórum

Árni sagði að forsætisráðherra hefði lagt fram tillögur um hvernig gera ætti breytingar á Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu „til að horfast í augu við það sem yfir okkur hefur gengið."

Hann sagði að Seðlabankinn heyrði undir forsætisráðuneytið en um hann giltu þó sérstök lög. Hann væri sjálfstæður frá forsætisráðherra. „Eins og fram hefur komið er ekki hægt að víkja Seðlabankastjórunum sí svona. Það þarf væntanlega að setja lög svo það geti gengið eftir."

Árni sagði að síðustu að auðvitað bæru allir þeir sem verið hefðu í stjórnmálum, í stjórn og stjórnarandstöðu, á undanförnum árum einhverja ábyrgð á því sem gerst hefði. „Þegar sú löggjöf sem gildir um bankana í dag var lögfest, var það gert með öllum greiddum atkvæðum. Þar að leiðandi getur enginn skotið sér undan því að bera að einhverju leyti ábyrgð á því bankakerfi sem hér var byggt upp."