Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra segir nýja skýrslu OECD um skattbyrði staðfesta að hér á landi hafi verið unnið markvisst að því að lækka skatta.

Árni segir ljóst að þegar tekjur einstaklinga hækki aukist skattbyrði þeirra í takt við það. „Eins og þróunin hefur verið og skýrsla OECD sýnir hafa tekjur einstaklinga hækkað þannig að sumir eru nú farnir að greiða skatt sem greiddu e.t.v. lítinn eða engan skatt áður,“ sagði Árni í samtali við Viðskiptablaðið.

Þá segir Árni að á tímabilinu sem um ræðir (árin 2000-2006)hafi markvisst verið unnið að því að lækka skatta. „Persónuafsláttur hefur fylgt verðlagsþróun á þessu tímabili. Hins vegar gerðu barnabæturnar það ekki með sama hætti en þær voru hækkaðar árið 2007 og nú hefur ríkisstjórnin kynnt frekari hækkun barnabóta,“ segir Árni. Hann minnir einnig á að á sama tímabili hafi hátekjuskattur verið afnuminn.

Skýrslan ekki áfellisdómur

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ sagði á hádegisfréttum mbl.is skýrsluna vera áfellisdóm yfir fyrri skattstefnu stjórnvalda. Hann sagði skattalækkanir á tímabilinu ekki hafa gagnast láglaunafólki.

Þessu er Árni ekki sammála og segir að þvert á móti sýni skýrslan skattalækkanir hafi komið öllum til góða. „Það er mjög mikilvægt að átta sig á launaþróun á tímabilinu,“ segir Árni. „Enn og aftur þarf að minna á það að einstaklingar eru að hækka í tekjum og fer því inn á önnur skattþrep.“

Árni segir ekki nýtt koma fram í skýrslunni heldur sýni hún fram á að það sem vitað var, að skattar á einstaklinga hafi lækkað.

Þá minnir Árni á að skattfleygur (e. tax wedge) sé með lægra móti á Íslandi fyrir hjón með tvö börn með meðaltekjur. Þar er skattfleygurinn 11,4% á meðan meðaltalið fyrir OECD ríkin sé 27,3%.