Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra kveðst hafa sagt við Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, að Íslendingar myndu standa við skuldbindingar sínar í Bretlandi.

„Ég sagði að við myndum standa við skuldbindingarnar og styðja við sjóðinn [Tryggingasjóð innistæðueigenda]," segir Árni í samtali við Viðskiptablaðið.

Samtalið átti sér stað á þriðjudag eða sólarhringi áður en Darling lýsti því yfir  í breskum fjölmiðlum að ríkisstjórn  Íslands hefði sagt að hún myndi ekki standa við skuldbindingarnar vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi.

„Þetta var mjög kurteist og hófstillt samtal. Við skildum með því að við myndum ræða saman aftur. Hann kvaðst kunna að meta alla þá hjálp sem við gætum veitt við að leysa málið," segir Árni.

„Ég get alls ekki ímyndað mér að þetta samtal hafi orsakað þau viðbrögð sem urðu í gærmorgun."