Stjórn ÍSOR hefur ráðið Árna Magnússon sem forstjóra Íslenskra orkurannsókna, ÍSOR. Hann mun taka við starfinu 1. júlí næstkomandi. Árni tekur við af Ólafi G. Flóvenz sem veitt hefur ÍSOR forstöðu frá stofnun en hann mun snúa sér alfarið að sérfræði- og vísindastörfum.

Árni starfaði hjá verkfræðistofunni Mannvit árin 2013-2020, lengst af sem framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða og síðar sem framkvæmdastjóri Mannvits í Ungverjalandi. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri endurnýjanlegrar orku hjá Íslandsbanka (Glitni) á árunum 2006-2013 en í því starfi stofnaði hann og stýrði alþjóðlegri deild bankans á sviði endurnýjanlegrar orku.

Árni var félagsmálaráðherra árin 2003-2006 auk þess að vera aðstoðarmaður ráðherra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og síðar í utanríkisráðuneytinu árin 1995-2002. Hann hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, félaga og stofnana innanlands og erlendis, meðal annars var hann varaformaður Íslenska orkuklasans, í stjórn Ameríska jarðhitasambandsins (GEA) og í stjórn Ameríska endurnýjanlega orkuráðsins (ACORE).

Þá var hann um árabil stjórnarformaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, átti sæti í stjórn Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar og stýrði átaksverkefni stjórnvalda um jarðhitaleit á köldum svæðum. Árni hefur lokið MIB námi í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst og lauk prófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1983.

„Það er með sannri tilhlökkun og ánægju sem ég tek við kefli forstjóra ÍSOR. Í stofnuninni býr bæði mikil þekking og kraftur, sérstaklega í þeim mannauði sem hún hefur á að skipa. Ég er sannfærður um að í framtíðinni felast mikil tækifæri, ekki síst með vaxandi alþjóðlegri áherslu á græna orku, sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð,“ er haft eftir Árna í fréttatilkynningu ÍSOR.

„Ég vonast sömuleiðis til að sú reynsla sem ég hef aflað mér á þessu sviði á undanförnum 14 árum, fyrst hjá Íslandsbanka og síðar Mannviti, ásamt meistaragráðu í alþjóðlegum viðskiptum, muni koma að góðu gagni í störfum mínum fyrir ÍSOR.”

Staða forstjóra ÍSOR var auglýst í byrjun mars og rann umsóknarfrestur út þann 30. mars. Ráðgefandi hæfnisnefnd var falið að meta hæfi og hæfni umsækjenda.

Ákvörðun stjórnarinnar var einróma um að Árni væri hæfasti umsækjandinn.  „Hann hefur haldgóða reynslu af orkumálum, jafnt innanlands sem á alþjóðavettvangi. Þá er hann reyndur stjórnandi og hefur viðamikla starfsreynslu bæði innan opinbera og einkageirans. Við teljum hann því rétta einstaklinginn til að leiða ÍSOR til framtíðar“ segir Þórdís Ingadóttir formaður stjórnar ÍSOR.

Um leið og stjórn ÍSOR býður Árna Magnússon velkominn til starfa þakkar hún Ólafi G. Flóvenz fyrir farsæl störf sem forstjóra og hans framlag til jarðvísinda. Ólafur hefur unnið að jarðhitarannsóknum frá árinu 1979, fyrst sem sérfræðingur og deildarstjóri jarðeðlisfræðideildar og síðar sem framkvæmdastjóri Rannsóknasviðs Orkustofnunar. Við stofnun ÍSOR árið 2003 var hann ráðinn forstjóri og hefur hann gegnt því starfi síðan.