Árni Maríasson hefur verið ráðinn forstöðumaður Markaðsviðskipta Landsbankans. Hann tekur við starfinu af Helga Þór Arasyni sem nýlega var ráðinn framkvæmdastjóri Landsbréfa, dótturfélags bankans.

Árni hefur mikla reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hann var forstöðumaður gjaldeyris- og afleiðumiðlunar í Búnaðarbankanum frá árinu 1998 til 2004 og forstöðumaður á Fyrirtækjasviði Landsbanka Íslands frá 2004 til 2009, en síðustu ár hefur hann verið forstöðumaður Lánasviðs MP Banka.

Árni er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og Masterspróf í stjórnmálahagfræði og alþjóðasamskiptum frá University of Kent í Englandi. Hann hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að Árni muni hefja störf í júlí.