„Það verði allir að sætta sig við það,“ sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra spurður hvort það sé ásættanlegt að erlendar fréttir geti feykt gengi krónu upp og niður og var sérstaklega vísað til síðastliðinn miðvikudags þegar krónan féll um 3,8%. „Við erum orðin svo tengt því sem er að gerast úti í heimi - þó það sé auðvitað óþægilegt,“ sagði hann.

Spurningin vaknaði í kjölfar ummæla Árna á blaðamannafundi í gær um að krónan hafi um nokkurt skeið veikst í kjölfar neikvæðra frétta af erlendum mörkuðum, jafnvel þó að engar neikvæðar fréttir hafi borist héðan frá Íslandi.

Árni sagði að Íslendingar væru ekki einir um að þurfa þola það, að erlendar fréttir hafi áhrif á gengi gjaldmiðils síns. „Meira að segja Bandaríkjamenn,“ sagði Árni. Hann tók sem dæmi að ummæli Seðlabankastjóra Evrópubankans hafi veikt Bandaríkjadollar.