Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, segir fjármagnskreppuna á alþjóðamörkuðum hafa gert lánskostnað „óásættanlega“ háan. Hann vill að ríkið fresti erlendri lántöku enn um sinn. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.

„Ef við samþykkjum lántöku á skilmálum sem eru klárlega óviðunandi og í engu samhengi við það sem við erum að gera og við stöðu bankanna hér á landi værum við að taka undir með þeim sem hafa tekið stöðu gegn okkur,“ segir Árni Mathiesen, og tekur fram að hann búist ekki við aukningu gjaldeyrisforðans í fyrirsjáanlegri framtíð.

„Við erum ekki tilneydd til að auka við gjaldeyrisforðann alveg á næstunni,“ segir Árni Mathiesen. „Hins vegar gerum við okkur auðvitað fulla grein fyrir því að það að hafa jafn stórt bankakerfi og við höfum þýðir að við þurfum að eiga stærri gjaldeyrisforða en ef við hefðum það ekki, og hann þurfum við að byggja upp þegar fram líða stundir.“

Árni segir það ekki koma til greina að minnka umsvif viðskiptabankanna til að auðvelda Seðlabankanum að eiga gjaldeyrisforða sem hæfir eignum bankanna. „Við teljum ekki vera hættu á gjaldþroti bankanna. Þeir standa á styrkum grunni og eru vel reknir, ég myndi ekki vilja sjá þá verða minni.“

Bent er á í grein Bloomberg að af eignum Kaupþings [ KAUP ] hefðu 4,65 billjónir króna verið í erlendri mynt um síðustu áramót. Íslenski Seðlabankinn eigi hins vegar gjaldeyrisforða upp á 203 milljarða króna.

Í gær birti Seðlabankinn reyndar nýjar tölur um gjaldeyrisforðann og hækkaði hann um 24 milljarða í júlí og nemur nú 227 milljörðum króna.

Frétt Bloomberg.