Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir 75 punkta vaxtalækkun bandaríska seðlabankans í gær mjög stóra aðgerð sem þegar hafi haft jákvæð áhrif á markaði í Bandaríkjunum. "Þetta eru jákvæðar fréttir, sérstaklega fyrir hagkerfi eins og okkar, sem í grunninn er í góðu lagi. Ég túlka aðgerðina sem svo að bandaríski seðlabankinn hafi miklar áhyggjur af því ástandi sem hefur skapast vegna fasteignamarkaðarins í Bandaríkjunum. Ég held að þessi aðgerð lýsi engri örvæntingu heldur einungis því að Bandaríkjamenn átta sig á því að vandinn sem hefur skapast er að mestu leyti orðinn til hjá þeim og þeir verða að gera eitthvað sem virkar á markaðinn. Þessari aðgerð er greinilega ætlað að hafa áhrif," segir Árni.

Hann segir stöðuna á íslenskum markaði af allt öðrum toga. Ástandið í Bandaríkjunum skapaðist vegna þess að gæði útlána bankastofnana þar voru önnur en í fyrstu var talið. Það hafi haft almenn áhrif á lausafjárstöðu. "Bankar í Bandaríkjunum hafa tapað vegna undirmálslánanna og vegna afleiddra áhrifa á markaðina. Hér á Íslandi eru afleiddu áhrifin að koma fram. Út af fyrir sig getur það síðan haft áhrif á aðra þætti," segir Árni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sótt um hann hér .