Í frétt Dow Jones í dag er greint frá því að fréttaveitan hafi talað við Árna Mathiesen fjármálaráðherra þar sem hann var staddur í Hamborg á fundi fjármálaráðherra Norðurlanda.

Krónan vanmetin

„Krónan var of sterk, nú er hún of veik, á endanum mun hún hækka aftur og verða einhvers staðar mitt á milli“ sagði Árni Mathiesen í viðtali við Dow Jones fréttaveituna.

Hann tók fram að hann teldi krónuna vera vanmetna núna. „Það hefur verið ætlan okkar í nokkurn tíma að auka gjaldeyrisforðann“ sagði Árni jafnframt.

„Við þurfum að undirbúa þetta vel, en við aukum forðann þegar rétti tíminn til þess kemur.“

Erlend matsfyrirtæki fylgja fréttaumfjöllun

Í frétt Dow Jones kemur fram að gjaldeyrir og hlutabréf á Íslandi hafi lækkað um 40% í verði síðan í júlí, á meðan skuldatryggingaálag bankanna hefur einnig hækkað. Verðbólga sé nú 8,7% á ársgrundvelli og stýrivextir þeir hæstu í Evrópu.

Í fréttinni er sagt frá þeim breytingum á lánshæfismati Íslands sem orðið hafa að undanförnu hjá erlendum matsfyrirtækjum. Þannig hefur Standard & Poor´s lækkað lánshæfiseinkunn ríkissjóðs á erlendum langtímaskuldbindingum í A úr A+ og á langtímaskuldbindingum í íslenskum krónum í AA- frá AA, svo dæmi sé tekið

Einnig varaði Moody´s við því í síðustu viku að hagkerfi Íslands virðist æ viðkvæmara eftir því sem kreppir að hvað lánsfé varðar á heimsvísu. Moody´s segjast hafa sífellt meiri áhyggjur af því að vandamál bankageirans á Íslandi gætu leitt til fjármálakreppu í landinu.

„Mér sýnist matsfyrirtæki frekar fylgja fréttaumfjöllun en einhverju öðru. Það hefur ekki orðið nein umbylting á íslensku efnahagslífi sem ég myndi telja ástæðu til þessara breytinga. Á hinn bóginn hafa breytingar á lánshæfismati Íslands ekki verið stórvægilegar“ sagði Árni, og tók einnig fram að matsfyrirtækin hafi valdið honum vonbrigðum.