Félagið Urriðahæð ehf. á langstærstan hluta bréfa í málsóknarfélagi að baki málsókn á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, en eigandi Urriðahæðar er Árni Harðarson, stjórnarmaður og lögmaður Alvogen. Alls á Urriðahæð 61,2% bréfa í málsóknarfélaginu, í samtali við Kjarnann staðfestir Árni að hann sé eigandi Urriðahæðar.

Árni hefur, ásamt Róbert Wessman, forstjóra Alvogen, lengi átt í deilum við Björgólf Thor, sem m.a. stefndi þeim báðum til greiðslu skaðabóta fyrir meintan fjárdrátt. Urriðahæð bættist í málsóknarfélagið á mánudag, degi fyrir þingfestingu málsins, en félagið hefur fengið framselt hlutafé og bótakröfur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og hjúkrunarfræðinga, Gildis lífeyrissjóðs, Stafa lífeyrissjóðs, Festar lífeyrissjóðs og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja.

Samkvæmt frétt Kjarnans hefur Urriðahæð greitt á bilinu 25-30 milljónir króna fyrir kröfurnar undanfarna daga.